Um Elkem
Saga verksmiðjunnar
Í upphafi hét félagið Íslenska járnblendifélagið hf. og var stofnað þann 28. apríl árið 1975 af Ríkisstjórn Íslands í samvinnu við fyrirtækið Union Carbide í Bandaríkjunum. Rétt rúmu ári eftir að Járnblendifélagið var stofnað dró Union Carbide sig út úr samstarfinu og í stað þess kom norska stórfyrirtækið Elkem að rekstrinum. Elkem átti 45% eignarhlut á móti 55% hlut ríkisins.
Árið 1984 keypti Sumitomo Corporation í Japan 15% hlut í Járnblendifélaginu af Elkem en árið 1997 var Elkem orðinn meirihlutaeigandi í félaginu. Nokkrar breytingar urðu á eignarhlut næstu árin á eftir og um tíma var félagið skráð á hlutabréfamarkaði á Íslandi. Elkem eignaðist félagið að fullu árið 2003. Árið 2008 var nafni fyrirtækisins breytt í Elkem Ísland ehf.
Verksmiðjan og framleiðsla
Verksmiðja Járnblendifélagsins var í upphafi teiknuð með fjóra bræðsluofna sem byggja átti í tveimur áföngum. Byrjað var á fyrri áfanganum árið 1977 með byggingu tveggja ofna og var sá fyrri tekinn í notkun árið 1979 og sá síðari ári seinna. Samanlögð framleiðslugeta ofnanna tveggja var um 60 þúsund tonn af 75% kísiljárni á ári en var síðar aukin í 72 þúsund tonn.
Fyrstu mánuðina eftir að verksmiðjan tók til starfa var kísiljárnmarkaðurinn sterkur en halla tók undan fæti þegar seinni olíukreppan skall á árið 1979. Verð á stáli lækkaði sem olli því að félagið var rekið með tapi allt fram til ársins 1984. Sökum þess voru áætlanir um stækkun verksmiðjunnar lagðar á hilluna í bili. Rekstur félagsins leið því fyrir það að stærð verksmiðjunnar var takmörkuð og því á mörkum þess að geta talist hagkvæm og samkeppnishæf rekstrareining. Rekstur félagsins var endurskipulagður á árunum 1992 og 1993 af þessum sökum og einnig til að bregðast við þeim erfiðu aðstæðum á heimsmarkaði sem blöstu við í kjölfar hruns Sovétríkjanna. Í kjölfar endurskipulagningar skilaði félagið hagnaði árið 1993. Hagnaður varð af rekstri næstu fimm árin og óx eigið fé félagsins hröðum skrefum á þessu tímabili.
Elkem eignaðist meirihluta í félaginu á árinu 1997 eftir samninga eiganda tengda stækkun verksmiðjunnar og þörf á fjármögnun þeirrar fjárfestingar. Stækkun verksmiðjunnar var formlega samþykkt af stjórn félagsins 19. mars árið 1998 og hófust framkvæmdir strax í kjölfar þess. Þriðji ofninn var svo tekinn í notkun haustið 1999.
Eigendabreytingar verksmiðjunnar
Í apríl 1998 seldi íslenska ríkið 26,5% hlut í félaginu eftir útboð. Íslenska járnblendifélagið hf. var svo skráð á aðallista Verðbréfaþings Íslands þann 18. maí 1998. Verð á kísiljárni lækkaði mjög seinni hluta árs 1997 og enn frekar næstu ár á eftir. Tap varð á rekstri félagsins árið 1999 og næstu tvö árin sem hafði áhrif á eiginfjárstöðu og þar með skilmála á langtímalánum. Hlutafé félagsins var aukið með útboði til hluthafa árið 2000 en Elkem sölutryggði útboðið. Að því loknu átti Elkem stærri hlut í félaginu. Í nóvember 2001 var hlutafé félagsins fært niður og í kjölfarið var útboð á auknu hlutafé. Elkem sölutryggði einnig það útboð og átti 72,59% hlut í félaginu að því loknu. Í desember 2002 keypti Elkem 10,49% hlut ríkisins og gerði öðrum hluthöfum tilboð um kaup á þeirra hlut. Í mars 2003 var Íslenska járnblendifélagið afskráð af Aðallista Kauphallarinnar en þá hafði Elkem eignast yfir 90% hlut í félaginu. Elkem keypti hlut annarra hluthafa síðar það ár og hefur verið eigandi félagsins að fullu frá árinu 2003.
Lengi framan af framleiddi Íslenska járnblendifélagið nær eingöngu staðal eða hefðbundið kísiljárn en það er blandað í hlutföllunum 25% járn og 75% kísilmálm. Árið 1997 var hlutfall annarra en hefðbundinna kísiljárnafurða um 7%. Með framleiðslu kísiljárns með lægra innihaldi af aukaefnum, líkt og áli, kolefni og títan, hefur félagið stöðugt aukið virði afurðanna.
Stjórn Elkem samþykkti þann 13. október 2006 að reisa nýja FSM framleiðslueiningu til frekari vinnslu á fljótandi kísiljárni. Fjárfestingin var áætluð 270 milljónir NOK (norskar krónur). FSM er kísiljárn blandað með magnesíum og fleiri efnum, ritað MgFeSi. FSM er ensk skammstöfun fyrir frumefnin járn (e. ferro), kísil (e. silicon) og magnesíum. Rekstur á FSM einingunni hófst árið 2008.
Snemma árs 2012 var framleiðslu á magnesíum kísiljárni (FSM) að mestu hætt hjá Elkem á Íslandi. En eftir sem áður var verksmiðjan rekin á fullum afköstum með framleiðslu annarra afurða.
Contact us
Take your business to the next level by partnering with a world-leading material manufacturer.